Fótbolti

Sölvi Geir og Ragnar fá nýjan þjálfara

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sölvi Geir Ottesen fagnar danska meistaratitlinum í fyrra.
Sölvi Geir Ottesen fagnar danska meistaratitlinum í fyrra. Mynd/Nordic Photos/Getty
Íslensku landsliðsmennirnir Sölvi Geir Ottesen og Ragnar Sigurðsson fá nýjan þjálfara eftir vetrarfríið en þeir spila saman í vörninni hjá dönsku meisturunum í FC Kaupmannahöfn.

Svíinn Roland Nilsson hefur þjálfað FCK síðan í sumar en forráðamenn félagsins hafa nú tilkynnt um starfslok hans. Það verður íþróttastjóri félagsins, Carsten V. Jensen, sem mun taka við danska toppliðinu.

Roland Nilsson kom til FCK í júní og skrifaði undir þriggja ára samning. Hann hafði gert Malmö að sænskum meisturum tímabilið á undan og tók við starfi Ståle Solbakken sem náði frábærum árangri með FCK frá 2006 til 2011.

FC Kaupmannahöfn er á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar eftir 18 leiki en liðið komst ekki í Meistaradeildina í haust og mistókst einnig að komast upp úr sínum riðli í Evrópudeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×