Fótbolti

Spænska pressan: Búið spil hjá Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo gat ekki leynt vonbrigðum sínum.
Cristiano Ronaldo gat ekki leynt vonbrigðum sínum. Mynd/AP
Real Madrid á ekki lengur möguleika á því að verða spænskur meistari samkvæmt spænskum fjölmiðlum eftir að liðið tapaði óvænt á móti fallbaráttuliði Osasuna í spænsku úrvalsdeildinni í gærkvöldi. Barcelona er búið að vinna fimmtán deildarleiki í röð og er komið með sjö stiga forskot á toppnum.

„Rotaðir í titilbaráttunni," skrifaði Marca á forsíðu sinni og undir var mynd af Cristino Ronaldo taka um höfuð sitt í svekkelsi. „Madridar-liðið hangir í titilbaráttunni á fingurnöglunum einum saman og getur í raun farið að einbeita sér að því að vinna spænska bikarinn og Meistaradeildina," stóð í grein um stöðu Real Madrid í Marca-blaðinu.

„Sjö stig. Nóg af vandamálum," skrifaði AS og bætti við: „Slakt Madridar-lið missteig sig á móti skipulögðu liði Osasuna."

Marca benti ennfremur á það að Real Madrid hafi aldrei tekist að vinna spænska meistaratitilinn eftir að hafa dregist sjö stigum aftur úr. Met-endurkoma félagsins er frá tímabilinu 2006-2007 þegar Real lenti fimm stigum á eftir en tókst samt að tryggja sér titilinn.

Blöðin í Barcelona gerðu meira úr því að Barcelona er að taka metin af Real Madrid. Barcelona jafnaði um helgina fimmtán leikja sigurgöngu Real Madrid frá 1960-1961. „Barcelona er að bæta öll met - flest þeirra sem voru í eigu Real Madrid," skrifaði blaðamaður Mundo Deportivo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×