Erlent

Íbúar gagnrýna stjórnvöld

Manni bjargað úr rústunum Björgunarfólk í Van stóð í ströngu í gær.
nordicphotos/AFP
Manni bjargað úr rústunum Björgunarfólk í Van stóð í ströngu í gær. nordicphotos/AFP
Meðal þeirra húsa sem hrundu í jarðskjálfta í austanverðu Tyrklandi í gær voru tvö hótel sem skemmdust verulega í enn harðari jarðskjálfta á sömu slóðum fyrir rúmlega hálfum mánuði.

Meðan björgunarfólk vann í rústum húsanna safnaðist að fjöldi íbúa sem mótmæltu því harðlega að þessum tveimur hótelum hefði ekki verið lokað í kjölfar fyrri skjálftans.

„Hvernig stendur á því að þessi tvö hús voru ekki girt af heldur fengu að halda áfram starfsemi?“ spurði Osman Baydemir, borgarstjóri í Diyarbakir sem er nokkru vestar en Van.

„Stjórnvöld verða að draga þá til ábyrgðar sem ábyrgir eru.“

Að minnsta kosti átta manns létu lífið vegna skjálftans á miðvikudag, sem mældist 5,7 stig og varð skammt frá borginni Van. Fyrri skjálftinn varð 23. október og mældist 7,2 stig, kostaði um 600 manns lífið. Um 1.400 eftirskjálftar hafa orðið á þessum slóðum eftir fyrri skjálftann.

Meðal hótelgesta sem létu lífið í seinni skjálftanum voru tyrkneskir blaðamenn sem voru að fjalla um afleiðingar fyrri skjálftans.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×