Skoðun

Plan B á verðtrygginguna

Eygló Harðardóttir skrifar

Fyrir nokkrum áratugum varð til hin fullkomna íslenska aðferð til að steypa fólki í skuldir með hjálp verðbólgunnar. Verðtryggingu var komið á. Eftir sitja íslenskir skuldarar að drukkna í feni þess fyrirbæris.



Fjölmargir íslenskir stjórnmálamenn hafa talað fyrir afnámi verðtryggingarinnar. Þrátt fyrir það gerist afskaplega lítið. Þegar meira að segja Jóhanna Sigurðardóttir fékk gullið tækifæri í kjölfar hrunsins til að aftengja vísitölu neysluverðs vegna forsendubrests brást henni kjarkur frammi fyrir svonefndum sérfræðingum, sem margir hafa hagsmuna að gæta af viðhaldi verðtryggingar.



Því er ekki að undra að fyrir stuttu var ég spurð: „Af hverju koðna allir niður í baráttunni gegn verðtryggingunni?“ Svarið er að þetta snýst um mikla hagsmuni. Þeir sem skulda verðtryggt eru líklegri til að vera yngri, muna síður eftir verðbólgutímunum og skulda mikið í eigin húsnæði. Þeir sem eiga verðtryggt eru væntanlega líklegri til að vera eldri, muna betur eftir áhrifum óðaverðbólgu og skulda lítið í eigin húsnæði.



Þessir hagsmunir hafa ítrekað tekist á.



„Lausnirnar“ hafa aftur og aftur sýnt hvaða hagsmunir hafa haft betur, hagsmunir fjármagnseigenda. Til dæmis var einfalt að aflétta verðtryggingu launa þar sem hún var talin verðbólguhvetjandi með víxlhækkunum verðlags og launa – þótt bent hafi verið á að sama megi segja um verðtryggingu skulda. Einnig mátti breyta viðmiðunarvísitölu til að auðvelda skuldurum að greiða af lánum sínum sbr.greiðslujöfnunarvísitalan.



Engin sanngirni liggur í að leggja þyngstu byrðarnar á kynslóðina sem byggir upp lífeyrissjóðina með greiðslu iðgjalda í sjóðina og skatts til að fjármagna lífeyri þeirra sem ekki hafa áunnið sér rétt til greiðslu úr sjóðunum, þá kynslóð sem einna helst tekur verðtryggðu lánin. Engin sanngirni liggur heldur í því að skerða lífeyri þeirra sem þegar hafa hafið töku hans. Allra síst liggur sanngirni í viðvarandi verðbólgu, sem verðtryggingin viðheldur þegar stýritæki Seðlabankans virka ekki.



Það er kominn tími til að leita sátta á milli kynslóða, sátta á milli skuldara og fjármagnseigenda.



Hættum að koðna niður frammi fyrir óvininum. Vinnum saman að því að afnema verðtrygginguna, með Plani B.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×