Heilagar ær og kýr Ólafur Þ. Stephensen skrifar 26. ágúst 2011 06:00 Viðbrögð Landssamtaka sauðfjárbænda við skrifum Þórólfs Matthíassonar hagfræðiprófessors hér í blaðið undanfarnar vikur eru dálítið yfirdrifin. Þórólfur hefur í greinum sínum gagnrýnt óskilvirkt og dýrt landbúnaðarkerfi, lélega afkomu og litla verðmætasköpun í sauðfjárbúskap, ásamt þeirri sérkennilegu staðreynd að lambakjöt er flutt út með ríkisstyrk á sama tíma og það vantar í búðir á Íslandi. Viðbrögð LS eru að senda formann sinn, Sindra Sigurgeirsson, á fund rektors Háskóla Íslands til að kvarta undan Þórólfi. Jafnframt hafa samtökin tilkynnt að þau hafi hætt við að kaupa þjónustu af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands – væntanlega til þess að starfsmenn skólans hugsi sig héðan af tvisvar um áður en þeir gagnrýna landbúnaðarkerfið opinberlega. Auðvitað ráða bændur af hverjum þeir kaupa þjónustu. Þeir geta alveg eins samið við útlent ráðgjafarfyrirtæki um að gera tillögur um hagræðingu í sláturiðnaði. Þann kost hafa þeir reyndar umfram íslenzka neytendur, sem geta ekki valið hvort þeir kaupa íslenzkt lambakjöt eða til dæmis nýsjálenzkt úti í búð, þökk sé landbúnaðarkerfinu okkar. Hitt er sérkennilegra, að Landssamband sauðfjárbænda túlki gagnrýni Þórólfs Matthíassonar á styrkja-, miðstýringar- og tollakerfið, sem hér hefur orðið til, sem „beinar árásir á stétt sauðfjárbænda“. Þetta er reyndar algengur misskilningur. Þeir sem gagnrýna þetta dýra og óskilvirka kerfi, sem meðal annars leggur hömlur á framtak og sjálfsbjargarviðleitni duglegra bænda, fá oft að heyra að þeir séu á móti landbúnaði, á móti bændum eða á móti landsbyggðinni. Landbúnaðarkerfið er hins vegar ekkert af þessu. Landbúnaður er nauðsynleg atvinnugrein; án hans fengjum við ekki allan mögulegan mat, sem við getum ekki verið án. Hann er líka mikilvægur partur af sögu og menningu Íslendinga og hefur af þeim ástæðum ákveðna sérstöðu. En það er mjög mismunandi á milli ríkja og heimshluta hvernig landbúnaðurinn er rekinn. Það getur eiginlega ekki verið að á Íslandi hafi verið fundin upp eina rétta formúlan og að hana megi alls ekki gagnrýna. Þegar fólk hlustar á málflutning forystumanna samtaka bænda fær það þó á tilfinninguna að það sé skoðunin á þeim bæ. Í grein sinni í Fréttablaðinu í gær dregur Þórólfur Matthíasson gagnrýni sína saman: „Skilyrðislaus peningaaustur úr ríkissjóði til sauðfjárbænda viðheldur hallarekstri margra sauðfjárbúa, tefur eða kæfir eðlilega þróun greinarinnar, skilar neytendum dýru kjöti og skattgreiðendum ómældum útgjöldum. Það er erfitt að skilja að nokkur aðili sem starfar að framleiðslumálum og styrkjamálum sauðfjárbúskaparins geti unað við óbreytt ástand.“ Af hverju vilja samtök bænda ekki ræða þessa gagnrýni á málefnalegum nótum og taka þátt í að þoka landbúnaðinum inn í eitthvað sem kallazt getur eðlilegt viðskiptaumhverfi? Vonandi halda sem flestir fræðimenn áfram að gagnrýna öll opinber kerfi sem fela í sér sóun og óskilvirkni. Það eiga ekki að vera neinar heilagar kýr í þeim efnum – og ekki ær heldur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun Slökkvistarfið Eiríkur Hjálmarsson Skoðun Fæðuöryggi þjóðar, sláum í klárinn, togum í tauminn Helgi Eyleifur Þorvaldsson Skoðun Hvatning til heilbrigðisráðherra Halla Þorvaldsdóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Verðmætasköpun með hugvitið að vopni Ingvar Hjálmarsson Skoðun Agaleysi í íslenskum skólum - Kennarar þurfa valdið til baka Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir Skoðun
Viðbrögð Landssamtaka sauðfjárbænda við skrifum Þórólfs Matthíassonar hagfræðiprófessors hér í blaðið undanfarnar vikur eru dálítið yfirdrifin. Þórólfur hefur í greinum sínum gagnrýnt óskilvirkt og dýrt landbúnaðarkerfi, lélega afkomu og litla verðmætasköpun í sauðfjárbúskap, ásamt þeirri sérkennilegu staðreynd að lambakjöt er flutt út með ríkisstyrk á sama tíma og það vantar í búðir á Íslandi. Viðbrögð LS eru að senda formann sinn, Sindra Sigurgeirsson, á fund rektors Háskóla Íslands til að kvarta undan Þórólfi. Jafnframt hafa samtökin tilkynnt að þau hafi hætt við að kaupa þjónustu af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands – væntanlega til þess að starfsmenn skólans hugsi sig héðan af tvisvar um áður en þeir gagnrýna landbúnaðarkerfið opinberlega. Auðvitað ráða bændur af hverjum þeir kaupa þjónustu. Þeir geta alveg eins samið við útlent ráðgjafarfyrirtæki um að gera tillögur um hagræðingu í sláturiðnaði. Þann kost hafa þeir reyndar umfram íslenzka neytendur, sem geta ekki valið hvort þeir kaupa íslenzkt lambakjöt eða til dæmis nýsjálenzkt úti í búð, þökk sé landbúnaðarkerfinu okkar. Hitt er sérkennilegra, að Landssamband sauðfjárbænda túlki gagnrýni Þórólfs Matthíassonar á styrkja-, miðstýringar- og tollakerfið, sem hér hefur orðið til, sem „beinar árásir á stétt sauðfjárbænda“. Þetta er reyndar algengur misskilningur. Þeir sem gagnrýna þetta dýra og óskilvirka kerfi, sem meðal annars leggur hömlur á framtak og sjálfsbjargarviðleitni duglegra bænda, fá oft að heyra að þeir séu á móti landbúnaði, á móti bændum eða á móti landsbyggðinni. Landbúnaðarkerfið er hins vegar ekkert af þessu. Landbúnaður er nauðsynleg atvinnugrein; án hans fengjum við ekki allan mögulegan mat, sem við getum ekki verið án. Hann er líka mikilvægur partur af sögu og menningu Íslendinga og hefur af þeim ástæðum ákveðna sérstöðu. En það er mjög mismunandi á milli ríkja og heimshluta hvernig landbúnaðurinn er rekinn. Það getur eiginlega ekki verið að á Íslandi hafi verið fundin upp eina rétta formúlan og að hana megi alls ekki gagnrýna. Þegar fólk hlustar á málflutning forystumanna samtaka bænda fær það þó á tilfinninguna að það sé skoðunin á þeim bæ. Í grein sinni í Fréttablaðinu í gær dregur Þórólfur Matthíasson gagnrýni sína saman: „Skilyrðislaus peningaaustur úr ríkissjóði til sauðfjárbænda viðheldur hallarekstri margra sauðfjárbúa, tefur eða kæfir eðlilega þróun greinarinnar, skilar neytendum dýru kjöti og skattgreiðendum ómældum útgjöldum. Það er erfitt að skilja að nokkur aðili sem starfar að framleiðslumálum og styrkjamálum sauðfjárbúskaparins geti unað við óbreytt ástand.“ Af hverju vilja samtök bænda ekki ræða þessa gagnrýni á málefnalegum nótum og taka þátt í að þoka landbúnaðinum inn í eitthvað sem kallazt getur eðlilegt viðskiptaumhverfi? Vonandi halda sem flestir fræðimenn áfram að gagnrýna öll opinber kerfi sem fela í sér sóun og óskilvirkni. Það eiga ekki að vera neinar heilagar kýr í þeim efnum – og ekki ær heldur.
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun