Innlent

Hægari framvinda við hagræðinguna

Hægt gengur að ná fram kröfum um hagræðingu innan borgarkerfisins og sumir efast um að það takist að uppfylla kröfurnar á þessu ári. Sex mánaða uppgjör borgarinnar verður lagt fram í borgarráði í dag. Trúnaður hefur ríkt um tölur uppgjörsins og er það að kröfu Kauphallarinnar. Enn er óvíst hvort uppgjörið verður gert opinbert í dag, en það er borgarráðs að ákveða það.

Meðal þeirra sviða þar sem illa gengur að ná fram hagræðingu er íþrótta- og tómstundasvið. Ómar Einarsson sviðstjóri staðfestir það, en vísar að öðru leyti í sex mánaða uppgjörið.

Ragnar Þorsteinsson, fræðslustjóri í Reykjavík, segir að innleiðing nýs skipulags gangi ágætlega hjá menntasviði. „Auðvitað eru menn á fullu að berjast í því að ná fram þeirri fjárhagsáætlun sem lögð var fram. Ég vona að við náum því."

Upphaflega var gerð krafa um 4,2 prósenta hagræðingu á menntasviði. Veitt var 200 milljóna króna aukafjárveiting til grunnskóla og krafan því lækkuð niður í þrjú prósent, eða um 550 milljónir króna.

Borgaryfirvöld lögðu fram áætlun um sameiningu skóla og leikskóla og átti hún að skila hagræðingu á þessu ári. Heimildir blaðsins herma að ekki náist að uppfylla þær væntingar og óvíst sé að hún skili nokkru á árinu.

Kjartan Óskarsson, skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík, segir of snemmt að spá fyrir um afdrif hagræðingarkrafna. Nýr kjarasamningur hafi áhrif og menn séu enn í lausu lofti. Hann vonast til að áætlun liggi fyrir áður en skólastarf hefst á mánudag.

Umræðan um sex mánaða uppgjörið hefur verið bundin trúnaði, þar sem borgin á skuldabréf í Kauphöllinni. Þykir mörgum kjörnum fulltrúum óeðlilegt að Reykjavíkurborg lúti sömu lögmálum og hvert annað fyrirtæki í Kauphöllinni. Það hamli pólitískri umræðu um stjórnun borgarinnar. - kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×