Erlent

Fór þriggja kílómetra lengri leið til Úteyjar

Christian Hatlo sat meðal annarra fyrir svörum á blaðamannafundi lögreglunnar í gær. fréttablaðið/ap
Christian Hatlo sat meðal annarra fyrir svörum á blaðamannafundi lögreglunnar í gær. fréttablaðið/ap
Lögreglan í Noregi hefur vísað á bug fréttum þess efnis að hægt hefði verið að komast frá Ósló í Útey á mun styttri tíma þegar hryðjuverk voru framin á stöðunum tveimur.

Ýmsir miðlar í Noregi hafa birt fréttir um málið undanfarið. Norska ríkisútvarpið sagði á þriðjudag að lögregla hefði farið þriggja kílómetra lengri leið til Úteyjar en hægt hefði verið að fara. Þá greindi TV2 sjónvarpsstöðin frá því að lögreglan hefði ekki vitað að þyrla hafi verið til staðar í Ósló og hefði getað flutt lögreglumenn þangað á nokkrum mínútum.

Á blaðamannafundi í gær sagði lögreglan að þyrlan sem um ræddi hafi verið á forræði spítala, og í viðbragðsstöðu til að flytja sjúklinga á milli spítala vegna sprengjuárásarinnar í Ósló. Lögreglan hafi ekki vitað af henni, og jafnvel þó svo hefði verið hefði tekið tíma að fá leyfi til að nota hana. Jafnvel þó að vitað hefði verið af þyrlunni hefði verið valin sú leið að keyra að eyjunni.

Greint var frá því að hryðjuverkamaðurinn Anders Behring Breivik hafi verið yfirheyrður á ný. Hann hafi verið samvinnuþýður við lögreglu og sagt frá ýmsu. Meðal annars er sagt að hann hafi kviðið fyrir því að framkvæma árásirnar, og að fyrstu morðin sem hann framdi í Útey hafi verið honum erfið.- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×