Innlent

Gangast í persónulegar ábyrgðir

Ólafur Haukur Johnson
Ólafur Haukur Johnson
Eigendur Menntaskólans Hraðbrautar hafa ákveðið að innrita nýnema þrátt fyrir að þjónustusamningur við mennta- og menningarmálaráðuneytið kveði aðeins á um kaup ráðuneytisins á þjónustu skólans vegna nemenda á öðru ári.

Eigendur Hraðbrautar ætla hins vegar að ganga í persónulegar ábyrgðir fyrir áframhaldandi rekstri skólans næsta skólaár. Það á við um alla nemendur skólans; þeirra sem ljúka námi og þeirra sem teknir verða inn á fyrra námsár í haust.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá eigendum Hraðbrautar sem Ólafur Haukur Johnson skólastjóri undirritar. Þar segir:

„Fréttir af andláti Menntaskólans Hraðbrautar eru því stórlega ýktar! Pólitísk atlaga ráðherra og ráðuneytis mennta- og menningarmála hefur vissulega stórskaðað rekstur skólans og ímynd. Einnig hefur atlaga ráðherra með ósanngjörnum hætti skaðað nemendur skólans og skólastarfið mikið en þrátt fyrir afar ómálefnalega atlögu eru aðstandendur skólans staðráðnir í að láta þessi öfl ekki knésetja sig.“

Ráðuneytið ákvað að endurnýja ekki þjónustusamning við skólann að undanfarinni rannsókn Ríkisendurskoðunar þar sem niðurstaðan var að skólinn hafi fengið tæplega 192 milljónir ofgreiddar frá ríkinu. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×