Innlent

Nýtt upplýsingafrumvarp rangtúlkað

Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir
upplýsingamál Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra telur að gagnrýni á frumvarp um ný upplýsingalög sé rangtúlkanir. Hún segir það sér að meinalausu að falla frá breytingunum.

Þetta kemur fram í svohljóðandi færslu sem Jóhanna setti inn á Facebook-síðu sína í gær: „Frv. til upplýsingal. og stóraukinn upplýsingaréttur er nú gert tortryggilegt með rangtúlkunum. Í stað 80 ára leyndar vegna stjórnarskrárvarinna einkamálefna einstakl. er lagt til að árin verði 110 í algerum undantekn.tilfellum, enda lifir fólk lengur. Ef gera á gott framfaramál tortryggilegt með slíkum villandi málflutningi þá er mér algerlega að meinalausu að falla frá breytingunni og færa ákvæðið til fyrra horfs.“

Eins og Fréttablaðið sagði frá á þriðjudag hefur Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður og fleiri gagnrýnt í umsögnum við frumvarpið að það sé geðþóttaákvörðun stjórnvalds að loka á skjöl í sextíu ár. Slíkt sé ekki í samræmi við gegnsæi í opnu þjóðfélagi.

Ekki síður hefur það verið gagnrýnt að þjóðskjalavörður getur, samkvæmt frumvarpinu, ákveðið að synja beiðni um aðgang að yngri skjölum en 110 ára vegna einka- eða almannahagsmuna.

Í umsögnum við frumvarpið er bent á að engin rök virðist hníga að því að leynd yfir skjali sé haldið í svo langan tíma. Er tekið dæmi um hvað það hafi verið árið 1901 sem myndi réttlæta leynd í dag á grundvelli almannahagsmuna.- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×