Innlent

Röng forgangsröðun ríkisstjórnarinnar

göng Séð út úr Fáskrúðsfjarðargöngunum.
göng Séð út úr Fáskrúðsfjarðargöngunum.
Framkvæmdaráð Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) telur að stjórnvöld fari ranga leið í byggðaaðgerðum.

Ríkisstjórnin fundaði nýverið á Ísafirði og kynnti þar ýmsar aðgerðir sem ætlað er að styrkja byggð.

Í fundargerð frá fundi framkvæmdaráðsins fyrr í mánuðinum segir meðal annars að við umfjöllun um málið hafi komið fram sterkur samhugur með Vestfirðingum og einhugur um að bregðast hefði þurft við neikvæðri byggðaþróun þar, þótt fyrr hefði verið.

„Hins vegar var það mál manna að enn á ný gripu stjórnvöld til þeirra ráða að kasta bjarghringnum til þeirra, sem í sjávarháskann væru komnir í stað þess að hækka öryggisstigið um borð í öllum flotanum (hinni verðmætaskapandi landsbyggð), sem heldur öðrum fremur hagkerfi landsins gangandi.“

Aðgerðir sem gripið væri til vestra gengju út á að styrkja grunnþætti sem fjármagn væri skorið niður til annars staðar, til dæmis á Austurlandi.

„Mætti í því sambandi minna á skert fjármagn til menningar-, menntunar- og þekkingarsamfélagsins, auk þess sem aðhaldssemi í opinberum framkvæmdum, til dæmis samgöngubótum, þýddi að fjölmörg verktakafyrirtæki berðust nú í bökkum.“

Framkvæmdaráð SSA ákvað að óska eftir því við ríkisstjórnina að hún héldi fund hið fyrsta á Austurlandi og ræddi um leið við sveitarstjórnarmenn „með það í huga að ákveðnar verði og tilkynnt um sértækar aðgerðir, sem snúi núverandi varnarstöðu víða á starfssvæði SSA í aukin sóknartækifæri.“- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×