Innlent

Refsing kannabisræktenda stytt

Kannabisræktun Mennirnir ræktuðu allt að 500 kannabisplöntur í útihúsi.
Kannabisræktun Mennirnir ræktuðu allt að 500 kannabisplöntur í útihúsi.
Hæstiréttur stytti með dómi sínum fyrir helgi fangelsisrefsingu yfir tveimur mönnum á þrítugsaldri úr tuttugu mánaða fangelsi í fjórtán mánuði. Mennirnir voru dæmdir fyrir stórfellda kannabisræktun.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands þess efnis að ekki skyldu gerðar upptækar tólf milljónir króna, sem fundust við húsleit né rúmlega 7.000 evrur sem fundust einnig í fórum mannanna, var ekki til endurskoðunar hjá Hæstarétti, þannig að hann stendur. Þriðji maðurinn sem var ákærður í málinu var sýknaður í héraðsdómi.

Mennirnir tveir játuðu undanbragðalaust að hafa gerst sekir um að rækta allt að 500 kannabisplöntur í útihúsi við Bala í Þykkvabæ, Rangárþingi ytra og hafa staðið að ólögmætri ræktun á kannabisplöntum allt fram til mars 2009 er lögregla fann ræktunaraðstöðuna við húsleit.

Báðir mennirnir eiga talsverðan afbrotaferil að baki. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að sakarferill ákærðu hvors um sig, umfang og eðli brotsins gæfu ekki tilefni til að skilorðsbinda refsingu ákærðu.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×