Innlent

Vilja hætta við allar sameiningar

Stjórnendur þeirra leikskóla sem sameina á í Reykjavík krefjast þess að fallið verði frá hugmyndum um sameiningu, þar sem innan veggja skólanna ríki gjörólík hugmyndafræði. Ekkert réttlæti sé falið í því að börn í 25 af 76 leikskólum borgarinnar taki á sig afleiðingar af niðurskurði leikskólasviðs.

Sameining í skólakerfi Reykjavíkurborgar var afgreidd af borgarráði í gær og kemur til lokaafgreiðslu á fundi borgarstjórnar í dag, eftir margra mánaða harðar deilur.

Frá upphafi hafa fulltrúar minnihlutans og flestir hagsmunahópar verið mótfallnir hugmyndunum þar sem faglegur og fjárhagslegur ávinningur sé óljós.

Meirihlutinn hefur hins vegar haldið sínu striki og sagt nauðsynlegt að leggja út í umfangsmiklar aðgerðir svo ekki þurfi að skera frekar niður í innra starfi skóla.

Tólf þúsund manns skrifuðu undir áskorun til borgaryfirvalda um að draga í land með áformin, og mikill meirihluti umsagna um tillögurnar voru neikvæðar.

Meirihlutinn segist hafa tekið tillit til hluta umsagna, en ekki hafi verið hægt að koma til móts við alla. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×