Innlent

Fáir felustaðir eftir í heiminum

beðið við bankann Norðurlandaríkin hafa samið um aðgang að upplýsingum um skattaundanskot við yfirvöld í þrjátíu löndum.Fréttablaðið/AFP
beðið við bankann Norðurlandaríkin hafa samið um aðgang að upplýsingum um skattaundanskot við yfirvöld í þrjátíu löndum.Fréttablaðið/AFP
„Það eru ekki margir staðir eftir í heiminum til að fela sig,“ segir Torsten Fensby, verkefnisstjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. „Engin skattaskjól eru lengur til í Evrópu. Það þarf að leita lengi til að finna þau,“ bætir hann við.

Nefndin greindi frá því í gær að skrifað hefði verið undir samkomulag á miðvikudag við yfirvöld á Seychelles-eyjum í Indlandshafi um skipti á skattaupplýsingum með það fyrir augum að sporna gegn skattaflótta landa á milli. Það merkir að öll norrænu ríkin fimm geta fengið aðgang að upplýsingum um alla einstaklinga sem reyna að koma sér hjá því að greiða tekju- og fjármagnsskatta í heimalandinu.

Þetta er þrítugasti samningurinn sem Norðurlandaríkin hafa undirritað síðastliðin fjögur ár. Fensby reiknar með að samningum við öll þekkt skattaskjól verði lokið um mitt næsta ár.

Samningar Norðurlandaríkjanna hafa svipt hulunni af fjölda skattsvika og hafa þeir sem slíkt hafa á samviskunni oftar en ekki gefið sig fram að fyrra bragði og greitt gjöld af því sem stungið var undan.

„Þetta hefur ekki síst forvarnargildi því þeim mun fækka sem munu reyna að koma sér hjá því að greiða skatt í heimalandinu,“ segir hann.- jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×