Innlent

Bæjarstjóri gerir stuðsamning

upphafsmaður Mugison tók Gúanóstelpuna, óopinbert einkennislag Aldrei fór ég suður, fyrir fjölmiðlafólk á verkstæði KNH á Ísafirði þar sem tónleikarnir fara fram. fréttablaðið/stefán
upphafsmaður Mugison tók Gúanóstelpuna, óopinbert einkennislag Aldrei fór ég suður, fyrir fjölmiðlafólk á verkstæði KNH á Ísafirði þar sem tónleikarnir fara fram. fréttablaðið/stefán
„Bæjarstjóri og bæjarfulltrúar skulu stuðla að óæskilegri hegðun og almennum kjánaskap meðan á hátíðinni stendur, meðal annars með því að dansa kjánalega, trufla hljómsveitir og ganga á fjörur við sjálft tónlistarfólkið.

Enn fremur að vera í stuði yfir dagana fjóra," segir í sérstökum „stuðsamningi" milli skipuleggjenda tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður og Daníels Jakobssonar, bæjarstjóra Ísafjarðar, sem skrifað var undir á Ísafjarðarflugvelli á þriðjudag.

Margvísleg aðkoma bæjarins að hátíðinni, sem haldin verður í áttunda sinn dagana 21. til 23. apríl næstkomandi, var þar staðfest formlega ásamt samstarfi við fleiri aðila á borð við Flugfélag Íslands, Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar og Inspired by Iceland, en tónleikum hátíðarinnar verður streymt í gegnum heimasíðu markaðsverkefnisins.

Um þrjátíu atriði verða í boði á hátíðinni í ár og segir Jón Þór Þorleifsson rokkstjóri áhuga tónlistarfólks á hátíðinni vera forréttindi. Til marks um það hafi hann neyðst til að hafna um 120 atriðum sem vildu koma fram.

Meðal atriða í ár má nefna Pál Óskar, Nýdönsk, FM Belfast, Bjartmar og Bergrisana, Klassart, Lifun, Valdimar og Grafík, að ógleymdum Mugison, einum skipuleggjenda hátíðarinnar. Þá mætir ísfirska kvennasveitin Sokkabandið til leiks eftir áralangt hlé.- kg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×