Innlent

Óvíst hvort varamaður þiggur sæti

Íris Lind Sæmundsdóttir
Íris Lind Sæmundsdóttir
Óvíst er hvort sá sem lenti í 26. sæti í kosningum til stjórnlagaþings þiggur sæti í stjórnlagaráði. Fyrsti fundur stjórnlagaráðs er áformaður næstkomandi miðvikudag.

Staðfest var í gær að 24 af þeim 25 sem náðu kjöri í kosningum til stjórnlagaþings tækju sæti í stjórnlagaráði. Aðeins Inga Lind Karlsdóttir hafnaði því að taka sæti. Frestur sem þau sem náðu kjöri höfðu til að svara því hvort þau tækju sæti í ráðinu rann út að kvöldi síðastliðins þriðjudags.

Íris Lind Sæmundsdóttir varð í 26. sæti í kosningunum, og hefur henni því verið boðið sæti Ingu Lindar á þinginu.

Íris sagðist í samtali við Fréttablaðið í gær ekki hafa ákveðið hvort hún tæki sæti í stjórnlagaráði. Hún hefur frest fram að helgi til að tilkynna um ákvörðun sína.

Eins og fram hefur komið ógilti Hæstiréttur kosningar til stjórnlagaþings. Í kjölfarið ákvað Alþingi að skipa þá sem náðu kjöri í stjórnlagaráð.

Ráðinu er ætlað að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins. Niðurstaða ráðsins mun ekki ráða úrslitum um breytingar á stjórnarskránni, þar sem það er aðeins Alþingi til ráðgjafar.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×