Innlent

Alþjóðasamfélagið hefur brugðist

Uppreisn á undanhaldi
Hersveitir Gaddafís virðist í þann veginn að leggja síðustu vígi uppreisnarmanna undir sig. Alþingismenn óttast hefndaraðgerðir harðstjórans og harma getuleysi alþjóðasamfélagsins.
Mynd/AFP
Uppreisn á undanhaldi Hersveitir Gaddafís virðist í þann veginn að leggja síðustu vígi uppreisnarmanna undir sig. Alþingismenn óttast hefndaraðgerðir harðstjórans og harma getuleysi alþjóðasamfélagsins. Mynd/AFP
Þingmenn úr öllum flokkum lýstu miklum áhyggjum af ástandi mála í Líbíu í utandagskrárumræðu í gær.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði að alþjóðasamfélagið hefði brugðist almenningi í landinu. Fyrir fáum dögum hefði virst sem almenningur væri að ná völdum en nú virtist Gaddafí einræðisherra vera kominn með yfirhöndina. Bengasí, síðasta vígi uppreisnarmanna, virðist við það að falla.

Össur tók undir með Gunnari Braga Sveinssyni, þingflokksformanni Framsóknar, sem hóf umræðuna, og harmaði að alþjóðasamfélagið hefði ekki skorist í leikinn.

Þegar umræðan stóð yfir þóttu, að sögn Össurar, litlar líkur á að öryggisráð SÞ kæmist að þeirri einróma niðurstöðu sem þurfi til að ljá hernaðaraðgerðum gegn Gaddafí nauðsynlegt lögmæti.

Gunnar Bragi sakaði alþjóðasamfélagið um hræsni. Þjóðarleiðtogar hefðu fyrir skömmu keppst við að hvetja líbísku þjóðina til dáða og hallmæla harðstjóranum.

„Nokkrum dögum seinna hefur dæmið snúist við,“ sagði Gunnar Bragi. Gaddafí noti hergögn á almenning sem Vesturlönd hafa séð honum fyrir í skiptum fyrir olíu og gas.

„Getur verið að viðskipti með olíu og vopn komi í veg fyrir að íbúum Líbíu sé hjálpað?“ spurði Gunnar Bragi.- pg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×