Innlent

Ráðuneyti í vanskilum vegna samninga

Innanríkisráðuneytið er eina ráðuneytið sem er í vanskilum við Ríkisendurskoðun, sem kallaði eftir öllum þjónustusamningum ráðuneytanna í desember.

Samningarnir eru alls 141 talsins og hafa þeir allir skilað sér í hús að undanskildum 16 samningum sem liggja hjá innanríkisráðuneytinu. Ítrekað hefur verið kallað eftir þeim og skilafrestur lengdur. Miðað er við alla núgildandi samninga sem eru í fjárlagafrumvarpinu 2011.

Ákveðið var að endurskoða alla samningana í kjölfar úttektar Ríkisendurskoðunar á þjónustusamningum menntamálaráðuneytisins við Menntaskólann Hraðbraut og félagsmálaráðuneytisins við meðferðarheimilið Árbót. Verið er að ganga úr skugga um að eftirfylgni með fjárlögum ráðuneytanna til hinna ýmsu stofnana sé samkvæmt áætlun.

Sveinn Arason ríkisendurskoðandi segir að sá tími sem liðinn er frá því að Ríkisendurskoðun óskaði fyrst eftir samningunum til endurskoðunar sé orðinn allt of langur. Beiðni til innanríkisráðuneytisins hafi verið ítrekuð en Sveinn segir engar útskýringar hafa borist.

„Þetta hefur ekki háð okkur fram að þessu, en nú fer þetta að tefja vinnuna,“ segir Sveinn. „Við gefum mönnum frest og höfum ekki verið með nein læti fram að þessu, en ítrekuðum þetta engu að síður. En við fáum engin viðbrögð.“

Ríkisendurskoðun mun ekki byrja að skoða neina samninga fyrr en innanríkisráðuneytið hefur skilað af sér.

Þeir 16 samningar sem ráðuneytið á eftir að skila í hús er meðal annars þjónustusamningur við Þjóðkirkju Íslands, sem hljóðar upp á 1,4 milljarða króna, og við Isavia, upp á 2,8 milljarða.

Jóhannes Tómasson, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, segir töfina fyrst og fremst Ríkisendurskoðun að kenna vegna ónákvæmra fyrirmæla.

„Fyrst mátti skilja fyrirspurnina eins og verið væri að biðja um alla samninga sem ráðuneytið hefur gert; eins og við almenna verktaka og Vegagerðina, sem nema hundruðum,“ segir Jóhannes.

„En hún var svo umorðuð og það er verið að tína saman upplýsingarnar.“ Hann segir líklegt að samningunum verði skilað inn til Ríkisendurskoðunar í næstu viku.

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×