Viðskipti innlent

Velta eykst á millibankamarkaði

Gjaldeyrir Bankarnir hafa í auknum mæli þurft að leita á millibankamarkað til kaupa á gjaldeyri, að mati Greiningar Íslandsbanka. Fréttablaðið/GVA
Gjaldeyrir Bankarnir hafa í auknum mæli þurft að leita á millibankamarkað til kaupa á gjaldeyri, að mati Greiningar Íslandsbanka. Fréttablaðið/GVA
Tölur Seðlabankans um daglega veltu á millibankamarkaði í febrúar benda, að mati Greiningar Íslandsbanka, til þess að veltan verði sú mesta í einum mánuði síðan í nóvember árið 2009.

„Eru hér að sjálfsögðu tekin út þau áhrif sem aðgerðir Seðlabanka Íslands höfðu á veltuna í desember síðastliðnum,“ segir í morgunkorni bankans í gær, en þá keypti bankinn gjaldeyri fyrir 24,6 milljarða króna af fjármálafyrirtækjum til þess að draga úr gjaldeyrismisvægi þeirra.

„Án þessara aðgerða var heildarveltan í desembermánuði 2.910 milljarðar króna.“

Bent er á að frá fyrsta til og með 18. febrúar hafi heildarvelta á millibankamarkaði numið 3.721 milljarði króna. Þar af séu viðskipti Seðlabankans 715 milljarðar, eða rétt tæpur fimmtungur veltunnar.

„Eru viðskipti Seðlabankans jafnframt nokkuð minni hluti af heildarveltunni en að undanförnu. Af þessu virðist ljóst að útflæði gjaldeyris hjá viðskiptabönkunum er nokkuð meira en sem nemur innflæði sem leiðir til þess að þeir hafa orðið að leita á millibankamarkað í mun meira mæli með kaup á gjaldeyri,“ segir í umfjöllun greiningardeildarinnar, en sú þróun er sögð samrýmast þróuninni á gengi krónunnar í mánuðinum.

„Af þeim þremur myntum sem vega hvað mest í vísitölunni, það er evru, Bandaríkjadollar og breska pundinu, hefur krónan veikst mest gagnvart pundinu,“ segir í Morgunkorni bankans, en sú veiking er sögð jafngilda veikingu krónunnar upp á 2,2 prósent.

„Gagnvart Bandaríkjadollar hefur krónan veikst um 1,8 prósent en gagnvart evru um 1,1 prósent.“- óká






Fleiri fréttir

Sjá meira


×