Fótbolti

Real Madrid og Barcelona mætast í bikarúrslitaleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mesut Özil skorar hér markið sitt í kvöld.
Mesut Özil skorar hér markið sitt í kvöld. Mynd/AP
Real Madrid og Barcelona munu mætast í úrslitaleik spænska konungsbikarsins í knattspyrnu í fyrsta sinn í 21 ár eftir að bæði lið unnu sigra í seinni leikjum undanúrslitanna í dag. Barcelona vann 3-0 sigur á Almeria fyrr í kvöld en Real Madrid tryggði sér sætið í úrslitaleikinn með sigri á Sevilla.

Real Madrid vann 2-0 sigur á Sevilla á Santiago Bernebau í kvöld þar sem bæði mörkin komu á síðustu átta mínútum leiksins. Þjóðverjinn Mesut Özil skoraði fyrra markið á 82. mínútu en það seinna gerði Emmanuel Adebayor í uppbótartíma eftir sendingu frá Lassana Diarra.

Karim Benzema skoraði eina markið í fyrri leiknum og vann Real Madrid því samanlagt 3-0.

Þetta verður 37. bikarúrslitaleikur Real Madrid frá upphafi en jaframt sá fyrsti síðan liðið tapaði fyrir Real Zaragoza í úrslitaleiknum árið 2004.

Þegar Real Madrid og Barcelona mættust síðast í bikarúrslitum árið 1990 þá vann Barcelona 2-0 með mörkum Guillermo Amor og Julio Salinas.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×