Körfubolti

Kvennalið Hauka búið að fá til sín breska stelpu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Henning Henningsson, þjálfari kvennaliðs Hauka.
Henning Henningsson, þjálfari kvennaliðs Hauka.
Haukar hafa ákveðið að bæta erlendum leikmanni við kvennalið sitt. Breski bakvörðurinn Lauren Thomas-Johnson mun leika með liðinu fram á vor en fyrir er bandaríski bakvörðurinn Kathleen Patricia Snodgrass.

Lauren Thomas-Johnson er 22 ára og 178 sm bakvörður sem kemur fram Manchester-borg í Englandi. Hún byrjaði háskólanám sitt í Kirkwood CC háskólanum í Bandaríkjunum en skipti síðan yfir í Marquette-skólann þar sem hún lék síðustu tvö tímabil.

Thomas-Johnson var með 8,2 stig, 2,2 fráköst og 1,1 stoðsendingu að meðaltali á lokaári sínu í skólanum en hún var þá valinn mikilvægasti varnarmaður liðsins.

Thomas-Johnson vann áður tvo NJCAA-meistaratila með Kirkwood-skólanum en NJCAA stendur fyrir National Junior College Athletic Association.

Thomas-Johnson var í leikmannahópi breska landsliðsins í undankeppni EM í haust en komst ekki í liðið. Hún hefur leikið marga landsleiki fyrir yngri landslið Englands

Hún lék einu sinni með 18 ára landsliði Englands á móti Íslandi (á EM í Bosníu 2005) þar sem einn leikmaður íslenska landsliðsins, Guðrún Ósk Ámundadóttir, er nú orðin samherji Thomas-Johnson í Haukaliðinu.

„Lauren er kröftugur leikmaður og mun án efa styrkja okkur í þeirri baráttu sem framundan er. Það hefur vantað herslumuninn hjá okkur í mörgum leikjum og með komu þessa leikmanns er þess freistað að auka stjálfstraust liðsins og vonumst við til að geta tryggt okkur sæti í efri hluta deildarinnar í næstu tveimur leikjum," segir Henning Henningsson, þjálfari Hauka í viðtali við heimasíðu félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×