Handbolti

Arnór: Getum unnið alla og tapað fyrir öllum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnór Atlason var þreyttur en ánægður eftir fyrstu æfingu íslenska landsliðsins í undirbúningnum fyrir HM í handbolta sem hefst í Svíþjóð í næstu viku.

Arnór átti frábært mót þegar Ísland vann til bronsverðlauna á EM í Austurríki fyrir ári síðan.

„Næsta mót leggst stórkostlega í mig enda alltaf gaman að fara á stórmót," sagði Arnór við Vísi. „Við erum búnir að gera góða hluti bæði á Ólympíuleikum og Evrópumeistaramóti. Nú vantar að gera líka góða hluti á heimsmeistaramóti."

„Það eru allir heilir og allir klárir í slaginn. Við söknum auðvitað Loga [Geirssonar] sem er frá vegna meiðsla en þeir sem eru í hópnum eru heilir og í góðu standi. Það eru líka vonandi allir kátir eftir eina ógeðisæfingu hjá Gumma."

„Sjálfur er ég bara hress. Mínu félagsliði hefur gengið vel og er ég fullur tilhlökkunar."

Ísland er í riðli með Japan og Brasilíu auk þriggja Evrópuþjóða. „Við erum þannig gerðir að við getum bæði unnið alla og tapað fyrir öllum. Síðast töpuðum við fyrir Brasilíu í sumar. Það þýðir því ekkert að fara í þessa leiki á hálfum hraða heldur krefjast allir fimm leikirnir þess að við förum í þá af fullum krafti."

„Okkur bíður svo erfiður milliriðill ef við komumst þangað og mikilvægt að fara í hann með nokkur stig - helst öll fjögur sem í boði verða."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×