Fótbolti

Birkir lagði upp mark í sigri Brann - Start féll

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Birkir Bjarnason í leik með íslenska landsliðinu.
Birkir Bjarnason í leik með íslenska landsliðinu.
Næstsíðast umferð tímabilsins í norsku úrvalsdeildinni fór fram í dag. Engum Íslendingi tókst að skora í þetta skiptið en Birkir Már Sævarsson lagði upp mark í 2-0 sigri Brann á Lilleström.

Birkir lagði upp síðara mark leiksins en hann spilaði allan leikinn í lði Brann. Stefán Logi Magnússon lék allan leikinn í marki Lilleström en Stefán Gíslason var ekki í leikmannahópi liðsins í dag. Björn Bergmann Sigurðarson var frá vegna meiðsla en þess ber að geta Lillström missti tvo leikmenn af velli með rautt spjald í dag.

Indriði Sigurðsson lék allan leikinn fyrir Viking sem gerði 1-1 jafntefli við Start, en Birkir Bjarnason var ekki í hópi Viking. Jafnteflið dugði þó ekki Start sem féll þar með úr norsku úrvalsdeildinni. Haraldur Freyr Guðmundsson lék allan leikinn í vörn liðsins.

Þá var Veigar Páll Gunnarsson ekki í leikmannahópi Vålerenga sem tapaði fyrir Strömsgodset, 2-1.

Pálmi Rafn Pálmason og Bjarni Ólafur Eiríksson léku báðir allan leikinn fyrir Stabæk sem tapaði fyrir Haugesund, 2-1, á heimavelli. Gilles Mbang Ondo skoraði mark Stabæk í leiknum.

Noregsmeistarar Molde unnu 3-1 sigur á botnliði Sarpsborg sem var fyrir löngu fallið úr deildinni.

Brann er í þriðja sæti deildarinnar með 48 stig, tíu stigum á eftir toppliði Molde og tveimur á eftir Tromsö.

Vålerenga, Stabæk, Viking og Lilleström sigla öll lygnan sjó um miðja deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×