Körfubolti

Njarðvíkingar lentu 16-0 undir en unnu samt í Seljaskóla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elvar Már Friðriksson í leiknum í kvöld.
Elvar Már Friðriksson í leiknum í kvöld. Mynd/Vilhelm
Njarðvíkingar unnu ótrúlegan endurkomusigur á ÍR-ingum í Iceland Express deild karla í körufbolta í kvöld. Njarðvík vann upp sextán stiga forskot Breiðhyltinga og tryggði sér að lokum 99-95 sigur. Þetta var líka langþráður sigur hjá Njarðvíkurliðinu sem var fyrir leikinn búið að tapa þremur deildarleikjum í röð.

Travis Holmes var með 33 stig og 15 fráköst fyrir Njarðvík í kvöld, Cameron Echols bætti við 28 stigum og 10 fráköstum og Elvar Már Friðriksson var með 12 stig og 5 stoðsendingar.

Nemanja Sovic og James Bartolotta skoruðu báðir 31 stig fyrir ÍR-liðið en það dugði ekki til. Kristinn Jónasson var síðan með 18 stig.

ÍR-ingar byrjuðu af krafti og skoruðu 16 fyrstu stig leiksins þar af komu níu þeira með þriggja stiga skotum. Njarðvíkingar klikkuðu á níu fyrstu skotum sínum og skoruðu ekki fyrr en eftir tæplega fjögurra mínútna leik.

ÍR var síðan 27-15 yfir eftir fyrsta leikhlutann og með 50-38 forystu í hálfleik. Nemanja Sovic skoraði 17 stig í fyrri hálfleiknum og James Bartolotta var með 13 stig.

Njarðvíkingar voru ekki á því að gefast upp og komu sér inn í leikinn með því að vinna þriðja leikhlutann 31-23 og minnka muninn í fjögur stig, 73-69, fyrir lokaleikhlutann.

Njarðvíkingar héldu uppteknum hætti í fjórða leikhlutanum og voru komnir með forystuna þegar sjö mínútur voru eftir, 81-80. Liðin skiptust á um forystuna næstu mínúturnar þar til að Njarðvíkurliðið náði góðum spretti og komst sjö stigum yfir, 98-91. Með því gerðu Njarðvíkingar út um leikinn og fögnuðu því ótrúlegum sigri í leikslok.



ÍR-Njarðvík 95-99 (27-15, 23-23, 23-31, 22-30)

ÍR: Nemanja  Sovic 31/9 fráköst, James Bartolotta 31, Kristinn Jónasson 18, Eiríkur Önundarson 6, Níels Dungal 6/6 fráköst/5 stoðsendingar, Ellert Arnarson 3/4 fráköst/5 stoðsendingar.

Njarðvík: Travis Holmes 33/15 fráköst, Cameron Echols 28/10 fráköst, Elvar Már Friðriksson 12/4 fráköst/5 stoðsendingar, Ólafur Helgi Jónsson 10, Maciej Stanislav Baginski 10, Styrmir Gauti Fjeldsted 4, Rúnar Ingi Erlingsson 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×