Innlent

Skotum hleypt af í ráninu

Mennirnir sem réðust inn í úraverslunina Michelsen á Laugavegi í morgun hleyptu af alvöru byssu inni í versluninni þegar þeir voru að ræna hana. Þetta telur Frank Úlfar Michelsen, eigandi búðarinnar.

Hann segir að mennirnir hafi skipað starfsfólki til að leggjast á gólfið á meðan þeir tæmdu hillur með dýrum úrum og armböndum. Hann segir að greinilegur hvellur hafi heyrst þegar starfsfólkið lá á gólfinu og telur hann að það hafi verið úr alvöru byssu.

Lögregla fann tvær leikfangabyssur í bíl í Þingholtunum sem þrír menn notuðu við ránið. Þó að um leikfangabyssur hafi verið að ræða útilokaði lögreglan ekki að mennirnir hafi haft alvöru skammbyssur í fórum sínum.

Mennirnir eru ófundnir en fjölmargir lögreglumenn vinna nú að rannsókn málsins.

Nánar verður fjallað um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan 18:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×