Fótbolti

Jafntefli hjá Valenica og Barcelona í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Victor Valdes og Barcelona-vörnin fékk á sig tvö mörk á fyrstu 23 mínútunum í kvöld.
Victor Valdes og Barcelona-vörnin fékk á sig tvö mörk á fyrstu 23 mínútunum í kvöld. Mynd/AP
Valencia er áfram á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar eftir 2-2 jafntefli við Spánarmeistara Barcelona á heimavelli í kvöld. Barcelona og Real Madrid töpuðu því bæði stigum í kvöld og hvorugt liðið er því meðal efstu þriggja liðanna eftir fjórar umferðir.

Cesc Fabregas tryggði Barcelona jafnteflið með marki á 77. mínútu sem kom eftir sendingu frá Lionel Messi en Argentínumaðurinn lagði upp bæði mörk Barcelona í þessum leik.

Valencia náði forystunni á 12. mínútu þegar Eric Abidal varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark eftir fyrirgjöf Jérémy Mathieu frá vinstri. Pedro Rodriguez jafnaði metin aðeins tveimur mínútum síðar eftir frábæran undirbúning frá Lionel Messi.

Pablo Hernández kom Valencia hinsvegar aftur yfir á 23. mínútu eftir að hafa fengið sendingu frá Jérémy Mathieu en vinstri bakvörður Valencia var því búinn að leggja upp tvö mörk á fyrstu 23 mínútum leiksins.

Barcelona og Real Madrid töpuðu bæði stigum í gær því Real Madrid náði aðeins markalausu jafntefli á móti Racing Santander. Valenica er eitt á toppnum með 10 stig en Málaga og Real Betis hafa bæði fengið níu stig. Barcelona er í 4. sæti með 8 stig og Real madrid er í 8. sætinu með 7 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×