Erlent

Líkir málflutningi við aðferðir Göbbels

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Amanda Knox mætir fyrir dómara
Amanda Knox mætir fyrir dómara mynd/afp
Áfrýjun bandarískrar skólastúlku sem hlaut dóm fyrir að myrða vinkonu sína á Ítalíu fyrir fjórum árum, var tekin fyrir í gær. Málið hefur vakið heimsathygli, en saksóknari líkir málflutningi lögmanns hennar við taktík áróðursmálaráðherra Hitlers.

Amanda Knox áfrýjaði í fyrra 25 ára fangelsisdómi sem hún hlaut fyrir að myrða bresku námskonuna Meredith Kercher á Ítalíu árið 2007. Fyrrverandi elskhugi hennar var dæmdur í 26 ára fangelsi fyrir morðið en talið er að þau hafi orðið stúlkunni að bana í kynlífsleik.

Knox, sem er 24 ára, kom fyrir rétt á Ítalíu í gær en hún hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu. Ný gögn hafa litið dagsins ljós, en sérfræðingar voru kallaðir til í því skyni að leggja mat á rannsókn ítölsku lögreglunnar á morðinu. Lögfræðingur Knox benti meðal annars á fyrir dóm í gær að skítugir hanskar hafi verið notaðir til að safna sönnunargögnum.

Saksóknari í málinu líkti málflutningi lögfræðings Knox við taktík Joseph Goebbels, áróðursmálaráðherra Hitlers, en hann telur rannsókn lögreglunnar fullnægjandi.

Réttarhöldin munu standa yfir í nokkra daga og verður dómur kveðinn upp í byrjun októbermánaðar.

Mál Knox hefur vakið heimsathygli en sjónvarpsmynd, sem byggð er á sögu hennar, hefur þegar verið gefin út. Fjölskyldur Knox og Kercher lýstu á sínum tíma vanþóknun sinni á myndinni, en hún þykir mjög hrottaleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×