Fótbolti

Trabzonspor tekur sæti Fenerbahce í Meistaradeild Evrópu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ólíklegt er að stuðningsmenn Fenerbahce taki tíðindum vel.
Ólíklegt er að stuðningsmenn Fenerbahce taki tíðindum vel. Nordic Photos/Getty Images
Evrópska knattspyrnusambandið UEFA hefur greint frá því að Trabzonspor taki sæti Fenerbahce í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu. Dregið verður í riðla á morgun.

Fyrr í dag tilkynnti tyrkneska knattspyrnusambandið að Fenerbahce fengi ekki að spila í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Ástæðan er sú að félagið sætir rannsókn vegna gruns um að úrslitum í leikjum félagsins á síðustu leiktíð hafi verið hagrætt.

Fenerbahce er ekki eina félagið í Tyrklandi sem sakað er um spillingu. Rúmlega 30 leikmenn og dómarar sitja í gæsluvarðhaldi og bíða þess að mál þeirra verði tekin fyrir.

UEFA skrifaði tyrkneska sambandinu bréf í gær þar sem þess var krafist að Fenerbahce yrði dregið úr keppninni. Refsiaðgerðum var hótað yrði ekki orðið við því.

Trabzonspor, sem hafnaði í 2. sæti deildarinnar í fyrra, verður því í pottinum þegar dregið verður síðdegis á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×