Enski boltinn

Barcelona hækkar tilboð sitt í Fabregas

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Löngu er ljóst að hugur Fabregas er á heimaslóðum í Barcelona.
Löngu er ljóst að hugur Fabregas er á heimaslóðum í Barcelona. Nordic Photos/Getty
Enski fjölmiðillinn Sky Sports greinir frá því að Barcelona hafi lagt fram nýtt tilboð í Cesc Fabregas, fyrirliða Arsenal, í dag. Tilboði Barcelona upp á 35 milljónir punda var hafnað fyrir skemmstu.

Að sögn enska fjölmiðilsins eru Katalónarnir bjartsýnir á að Arsenal samþykki betrumbætt tilboð sitt. Arsenal virðist hafa gefið Fabregas upp á bátinn en vill þó fá 40 milljónir punda fyrir kappann.

Fyrr í dag greindu enskir vefmiðlar frá því að Marouane Chamakh leikmaður Arsenal teldi liðsfélaga sína Fabregas og Nasri á leið frá félaginu. Það eina sem stæði í vegi fyrir sölu þeirra væri að Arsenal væri ekki búið að finna menn til að fylla í skörðin.

Fabregas er í Meistaradeildarhópi Arsenal sem mætir Udinese í 4. umferð forkeppninnar í næstu viku. Talið er að Arsenal vilji ganga frá sölunni á Fabregas sem fyrst svo þeir hafi tíma til þess að nýta fjármagnið. Félagaskiptaglugginn lokast í lok mánaðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×