Fótbolti

Mourinho í fjölmiðlafríi - Karanka mætti á blaðamannafund í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho á hliðarlínunni í gær.
Jose Mourinho á hliðarlínunni í gær. Mynd/Nordic Photos/Getty
Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid, sendi aðstoðarmann sinn, Aitor Karanka, til fundar við blaðamenn eftir 2-2 jafntefli Real Madrid og Barcelona í fyrri leik liðanna í Spænska ofurbikarnum í gær.

Karanka var ósáttur með dómgæsluna í leiknum og taldi enn á ný að hún félli með Barcelona í innbyrðisleikjum liðanna. „Real Madrid hefur bætt sig frá því í fyrra en það eru sumir hlutir sem breytast ekki," sagði Aitor Karanka en mesta púðrið fór í að gagnrýna það þegar Victor Valdes virtist komast upp með að fella Cristiano Ronaldo í teignum á lokakaflanum.

„Úrslitin eru svona en við við erum sáttir með spilamennskuna. Það er synd að við skyldum ekki vinna þennan leik miðað við frammistöðuna og öll færin sem við fengum. Við erum samt mjög ánægðir með vinnusemi leikmanna," sagði Karanka og bætti við:

„Þegar þú gerir allt þitt og nærð samt ekki að vinna þá skilur það auðvitað eftir súrsætt bragð í munninum en það er þó ljóst að við erum með betra lið en í fyrra og við huggum okkur við það," sagði Karanka en af hverju mætti Mourinho ekki á fundinn?

„Þetta er fyrirkomulag sem var líka við lýði í fyrra. Ég talaði við fjölmiðla í Bandaríkjaferðinni og svona er verkaskiptingin okkar," sagði Karanka en Mourinho hefur verið í fýlu út í spænska blaðamenn í nokkurn tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×