Fótbolti

Pique: Mourinho er að eyðileggja spænska fótboltann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gerard Pique.
Gerard Pique. Mynd/Nordic Photos/Getty
Gerard Pique, varnarmaður Barcelona, sakaði Jose Mourinho, þjálfara Real Madrid, um að vera að reyna að eyðileggja spænska fótboltann eftir 3-2 sigur Barcelona á Real Madrid í spænska Ofurbikarnum í gær.

Lionel Messi tryggði Barcelona sigurinn í lokin en í kjölfarið sauð upp úr og á endanum litu þrjú rauð spjöld dagsins ljós.

„Mourinho er að eyðileggja spænska fótboltann. Fólk er að leita af sökudólgunum en þeir eiga heima í Madríd. Það þarf einhver að skoða myndböndin og fá það á hreint hverjum þetta er að kenna," sagði Gerard Pique um lætin í lokin.

„Ég vona samt að fólk verði að tala um frábæran fótboltaleik á fimmtudaginn en ekki slagsmálin í lokin. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem svona hlutir gerast og það eru alltaf sömu mennirnir sem byrja þetta," sagði Pique.

Það varð allt vitlaust eftir að Marcelo braut illa á Cesc Fabregas  í uppbótartíma leiksins en áður hafi Marcelo greinilega reynt að sparka aftan í Lionel Messi þegar hann hljóp framhjá honum.

Marcelo fékk rautt fyrir brotið og eftir að menn róuðu sig niður fengu þeir Mesut Ozil og David Villa einnig að líta rautt spjald en það var búið að skipta þeim báðum útaf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×