Fótbolti

Mourinho sleppur líklega við refsingu fyrir að pota í auga Tito

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
José Mourinho.
José Mourinho. Mynd/Nordic Photos/Getty
José Mourinho, þjálfari Real Madrid, átti stóran þátt í að magna upp hópslagsmálin í stórleik Barcelona og Real Madrid í spænska ofurbikarnum á miðvikudagaskvöldið þegar hann potaði viljandi í auga aðstoðarþjálfara Barcelona. Mourinho virðist hinsvegar ætla að sleppa við refsingu af því að dómari leiksins minntist ekkert á atvikið í skýrslu sinni.

Tveir leikmenn fengu rautt eftir slagsmálin, David Villa fyrir að slá Mesut Ozil og Ozil fyrir að bregðast illa við því. Áður hafði Marcelo fengið rautt fyrir ruddatæklingu á Cesc Fábregas en sú tækling var keikjan að slagsmálunum.

Dómarinn missti af poti Mourinho en sjónvarpsvélarnar náðu þessu hinsvegar þar sem portúgalski þjálfarinn labbaði rólega upp að Tito Vilanova og potaði í auga hans. Það virtist fyrst vera sem að Mourinho hafi klipið hann létt í kinnina en þegar betur var að gáð sást að Mourinho potaði í auga hans.

Þegar Mourinho var spurður út í atvikið eftir leikinn kom hann af fjöllum og sagðist ekkert vita hver þessi "Pito" Vilanova sé. Hvort sem það var viljandi eða ekki þá kallaði Mourinho hann Pito sem er slanguryrði fyrir typpi á Spáni.

Leikmenn og þjálfari Barcelona fordæmdu José Mourinho eftir leikinn og það er í það minnsta ljóst að hann hefur ekki eignast marga aðdáendur með svona framkomu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×