Fótbolti

Mourinho þurfti að hlaupa undan æstum aðdáendum í Kína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid.
Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid, er einn allra frægasti og virtasti knattspyrnuþjálfari í heimi og hann er þekktur út um allan heim. Það fékk hann að kynnast í verslunarmistöð í Kína í gær.

Það ætlaði allt um koll að keyra þegar fólkið uppgötvaði að sjálfur Mourinho væri mættur á staðinn og Portúgalinn þurfti að taka á sprett til að komast undan hundruðum aðdáenda sem eltu hann í troðfullri verslunarmiðstöðinni.

Mourinho er mættur til Guangzhou þar sem Real Madrid spilar æfingaleik við lið heimamanna og það hefur verið mikil öryggisgæsla í kringum hann og alla leikmenn Real-liðsins.

Fólkið situr um hótelið sem Real Madrid er á og öryggisverðirnir ætluðu þarna að lauma Mourinho út um verslunarmiðstöðina sem er tengd hótelinu í stað þess að fara í gegnum allan mannfjöldann fyrir framan hótelið.

Það gekk þó ekki betur en svo að um tvö hundruð manns voru fljótir að koma auga á þjálfarann heimsfræga sem þurfti að taka á mikinn sprett með öryggisverðina og aðdáendurnar á eftir sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×