Fótbolti

Kínverjar segja Ronaldo vera hrokagikk

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ronaldo gaf aðeins meira af sér við þennan unga dreng en blaðamenn í Kína.
Ronaldo gaf aðeins meira af sér við þennan unga dreng en blaðamenn í Kína. Nordic Photos / AFP
Kínverskir fjölmiðlamenn og knattspyrnuáhugamenn eru allt annað en ánægðir með frammistöðu Cristiano Ronaldo á blaðamannafundi þar í landi á dögunum.

Félag Ronaldo, Real Madrid, er nú á keppnisferðalagi í Kína þar sem knattspyrnuáhuginn er mikill og Ronaldo í uppáhaldi hjá mörgum. Hann sat fyrir svörum á blaðamannafundi í Guangzhou í gær fyrir leik liðsins gegn Guangzhou Evergrande.

Ronaldo þótti einfaldlega leiðinlegur í tilsvörum sem voru stutt og snubbótt. „Hann virðist eigingjarn og hrokafullur," sagði Yan Qiang, varaforseti fjölmiðlafyrirtækis í Kína, Titan Media. „Það er alveg ljóst að framkoma hans mun ekki gera honum neina greiða í Kína."

Hann var til að mynda spurður hvernig ástandið væri á Kaka, liðsfélaga Ronaldo hjá Real. „Perfecto," sagði Ronaldo og lét þar við sitja.

Annar blaðamaður reyndi þá að brydda upp á öðru og léttara umræðuefni og spurði hvort hann væri duglegur að skipta um bleiur á ungum syni sínum. „Já. Það er mér sem föður eðlilegt að skipta um bleiur," sagði Ronaldo án þess að stökkva bros.

Spurður um hvort hann myndi mögulega einn daginn snúa aftur til Englands og þá Manchester United sagði kappinn: „Kannski. Af hverju ekki? Maður veit aldrei."

Hann var einnig spurður um álit sitt á borðtennis og hvort hann þekkti einhverja kínverska knattspyrnumenn. Sömuleiðis spurðu blaðamenn hann hvað honum þætti um Guangzhou og var svarið einfalt; „Það er heitt."

Ronaldo var staddur hér á landi í október síðastliðnum þegar að Ísland mætti Portúgal í undankeppni EM 2012 en lét það vera að ræða við íslenska fjölmiðlamenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×