Innlent

Viðbúnaður á Íslandi ekki verið aukinn vegna sprengjunnar

Hafsteinn Hauksson skrifar
Brak og glerbrot liggja eins og hráviði um götur Oslóar.
Brak og glerbrot liggja eins og hráviði um götur Oslóar.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra er ekki með aukinn viðbúnað hér á landi vegna sprengjuárásarinnar í Osló. Guðrún Jóhannesdóttir, fulltrúi almannavarnadeildarinnar segir að það sé stjórnvalda að taka ákvörðun um slíkt.



Almannavarnadeildin fylgist engu að síður grannt með málum í Noregi, en deildin er búin undir að bregðast við sambærilegri árás hér á landi.



„Við erum að sjálfsögðu alltaf í viðbragðsstöðu fyrir hvers konar atburði, af þessu tagi jafnt sem öðrum," segir Guðrún, en bætir við að efla þyrfti almannavarnadeildina ef til þess kæmi.



Hún segir að á fundi almannavarnadeilda á Norðurlöndum síðasta vor hafi verið rætt um möguleg atvik sem almannavarnadeildir á Norðurlöndum gætu þurft að bregðast við. Beinar árásir á löndin hafi verið á meðal þess sem þar var rætt.



Allt frá hryðjuverkaárásunum á tvíburaturnana í New York árið 2001 hefur verið rætt um hættuna á árásum á Norðurlöndin, en Guðrún segir að nú séum við að horfa upp á það gerast.



Guðrún segir ómögulegt að segja hvort Íslandi stafi hætta af sprengjuárásum eins og þeirri sem varð í Noregi í dag, en segir þó ekkert sérstakt benda til þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×