Erlent

Breivik markaðssetti sjálfan sig: Fór í ljós og tók stera

Erla Hlynsdóttir skrifar
Breivik dreifði myndum af sjálfum sér þar sem hann er búinn að hafa sig sérstaklega til.
Breivik dreifði myndum af sjálfum sér þar sem hann er búinn að hafa sig sérstaklega til.
Markaðssetning á málstað sínum er norska fjöldamorðingjanum Anders Breivik afar hugleikin ef marka má stefnuyfirlýsinguna sem hann sendi frá sér fyrir morðin. Þar ráðleggur hann fylgismönnum að huga vel að ímynd sinni, láta fagmenn taka af sér góðar ljósmyndir og jafnvel notast við myndvinnsluforritið Photoshop til að útkoman verði sem allra best.

Breivik segir að yfirvöldum þyki æskilegt að geta dreift lélegum myndum af þeim sem berjist gegn fjölmenningarstefnunni og því sé best að hafa sjálfur frumkvæði að því að koma góðum ljósmyndum í dreifingu. Breivik birtir myndir af sjálfum sér bæði í stefnuyfirlýsingunni og í myndbandi sem hann sendi frá sér á föstudag þar sem hann er uppáklæddur og til hafður.

Hann ráðleggur fylgismönnum sínum, sem hann kallar riddara. „Sem musterisriddari ferð þú í sögubækurnar sem einn af áhrifamestu einstaklingum samtímans. Þess vegna þarftu að líta sem allra best út og tryggja að þú hafir unnið gott markaðsefni fyrir aðgerðina þína," segir Breivik í stefnuyfirlýsingunni. Sjálfur vísar hann þar til fjöldamorðanna sem hann sjálfur var þá að skipuleggja sem „aðgerðar."

Óhugnarlegur broskall


Ofan á þann óhug sem fjöldamorðin hafa vakið meðal almennings hefur það enn magnað hryllinginn að lesa það sem Breivik skrifar nánast í upphafi stefnuyfirlýsingarinnar. Þar segir hann fjárhagslegan kostnað við vinnslu hennar hafa verið um 317 þúsund evrur, eða jafnvirði tæplega 53 milljóna íslenskra króna. Breivik telur þar til um 130 þúsund evrur sem hann lagði sjálfur til og um 187.500 evrur sem hann telur til vegna launalausrar vinnu við skrifin síðastliðin þrjú ár. „Allt þetta er hins vegar hverfandi samanborið við fórnarkostnaðinn við dreifingu bókarinnar, hina eiginlegu markaðsaðgerð :)" skrifar Breivik og er þar talið víst að hann eigi við fjöldamorðin. Hann bætir síðan broskalli við í lokin.

Mælir með förðunarfræðingi

Nokkrir undirkaflar um markaðssetningu eru í stefnuyfirlýsingunni, eða „bókinni" eins og Breivik kallar hana. Auk þess að hvetja menn til að notast við myndvinnsluforrit vekur hann athygli á því hversu miklu máli getur skipt að fá förðunarfræðing sér til aðstoðar fyrir myndatöku. „Já, þetta hljómar hommalega, en það eykur áhrif þeirra skilaboða sem við erum að koma á framfæri að vera aðlaðandi," skrifar Breivik. Hann bendir sérstaklega á að það sé engum vil framdráttar að lúta út eins og hellisbúi, og vísar þar til múslimans Osama Bin Laden. Þá leggur hann einnig til að fólk fari í nokkra ljósatíma til að vera frísklegri í myndatökunni.

Meðal þess sem Breivik ráðleggur fylgismönnum sínum að gera til að falla sem mest í fjöldann er að fá sér bifreið sem vekur litla athygli. Sjálfur ók hann um á gráum Hyundai Atos sem hann viðurkennir þó að sé kannski ekki hannaður fyrir töffara. „It´s a really gay car," skrifar hann en segir þennan bíl þó senda réttu skilaboðin til umhverfisins. Þá segir Breivik mikilvægt að klæða sig í vinsæl merki sem veki litla athygli. Hann heldur mest upp á fatnað frá LaCoste. Rakspírinn sem Breivik notar er síðan Platinum Egoiste frá Chanel.

Segist hafa persónutöfra


Breivik er mjög ánægður með eigið útlit, samkvæmt því sem hann skrifar, og segist hann í raun aldrei hafa litið jafn vel út og nú. Í kafla þar sem hann fordæmir lauslæti, og tekur dæmi af lauslátum vinum sínum, segist hann auðveldlega hafa geta farið sömu leið og þeir ef hann vildi vegna hans eigin „útlits, stöðu, útsjónarsemi og persónutöfra." Hann hafi hins vegar viljað einbeita sér að „aðgerðinni" sinni og málstaðnum.

Honum er annt um að heimurinn viti sem mest um hann, og reynir hann að gefa af sér sem besta mynd. Hann viðurkennir að sumum sem hann hefur átt í samskiptum við upplifi hann sem hrokafullan.

Aldrei jafn hamingjusamur

Aðalpersóna bókarinnar American Psycho eftir Bret Easton Ellis hefur verið nefnd í tengslum við Breivik en þar var um að ræða siðblindan fjöldamorðingja sem lagði ofuráherslu á útlit og hafði óbilandi trú á eigin ágæti.

Hann skrifar í dagbók sína, sem er í stefnuyfirlýsingunni, síðla árs 2010 að þegar hann er ekki að vinna sé hann duglegur að æfa. Breivik tók bæði anabólíska stera, sem eru þekktir fyrir að auka á árásargirni, og efedrín. Í dagbókarfærslunni segir: „Líkami minn er eiginlega fullkominn nú og ég hef aldrei verið jafn hamingjusamur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×