Fótbolti

Eyðsla Malaga heldur áfram - kaupa spænskan landsliðsmann fyrir metfé

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Santi Cazorla í landsleik með Spáni gegn Venesúela.
Santi Cazorla í landsleik með Spáni gegn Venesúela. Nordic Photos/AFP
Malaga heldur áfram að verja peningum konungsfjölskyldunnar frá Katar í nýja leikmenn. Nú hefur spænski miðjumaðurinn Santi Cazorla gengið til liðs við félagið frá Villareal. Kaupverðið er talið vera um 20 milljón evrur sem gerir Cazorla að dýrasta leikmanni Malaga.

Cazorla var í landsliðshópi Spánverja sem varð Evrópumeistari sumarið 2008. Bakmeiðsli komu í veg fyrir þátttöku hans með liðinu á HM í Suður-Afríku. Hann hefur spilað 34 landsleiki fyrir Spán og skorað í þeim fjögur mörk.

„Þetta hafa verið frábær síðustu ár en fótboltinn heldur áfram og framundan er mjög spennandi verkefni hjá Malaga sem ég verð að einbeita mér að," sagði Cazorla á blaðamannafundi í höfuðstöðvum Villareal í tilefni af brottför hans.

Leikmannahópur Manuel Pellegrini knattspyrnustjóra Malaga er orðinn mjög sterkur með leikmenn á borð við Ruud van Nistelrooy og Jeremy Toulalan innanborðs. Nýlega kom Fernando Hierro aftur á heimaslóðir í stjórnandahlutverk hjá félaginu og óhætt að segja að Malaga ætli sér stóra hluti á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×