Erlent

Fyrsta af allt of mörgum jarðarförum

„Þetta er fyrsta af allt of mörgum jarðarförum eftir hinar hræðilegu hörmungar á föstudaginn var," sagði Jonas Gahr Stoere, utanríkisráðherra Noregs, eftir að ung stúlka sem fórst í hryðjuverkaárásunum í Noregi fyrir viku var borin til grafar í dag, sú fyrsta af fórnarlömbum Anders Breiviks.

Bano Abodakar Rashid var átján ára stúlka sem búið hafði í Noregi frá árinu 1996, eftir að hún flúði frá Írak ásamt foreldrum sínum. Hún var ein þeirra 68 sem féllu í skotárás Anders Brevik í Útey fyrir viku síðan, en útför hennar var gerð í dag frá Nesoddakirkju, fyrst allra fórnarlamba Breiviks.

Fórnarlamba árásanna var minnst um allan Noreg, meðal annars í sérstakri athöfn sem bæði Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra Íslands, sóttu. Þar héldu syrgjendur uppi rauðum rósum til minningar um fórnarlömbin, en þær eru tákn norska verkamannaflokksins sem mörg fórnarlambanna tilheyrðu. Þá sótti Stoltenberg einnig minningarathöfn í mosku í innflytjendahverfi í Osló.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×