Íslenski boltinn

Kristín Ýr hetja Valskvenna - Grindavík, FH og KR líka áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristín Ýr Bjarnadóttir.
Kristín Ýr Bjarnadóttir. Mynd/Stefán
Valskonur slógu Breiðablik út úr bikarnum þriðja árið í röð með því að vinna 1-0 sigur í leik liðanna í 16 liða úrslitum Valitor-bikars kvenna sem fram fór á Kópavogsvellinum í dag. Grindavík, FH og KR komust einnig áfram í átta liða úrslitin í dag.

Valsliðið hefur unnið bikarinn undanfarin tvö ár og var að vinna sinn áttunda bikarleik í röð en Valur sló Breiðablik einnig út úr 16 liða úrslitunum á Kópavogsvellinum í fyrra. Kristín Ýr Bjarnadóttir skoraði sigurmark Vals strax á 6. mínútu leiksins og staðan breyttist ekkert þrátt fyrir ágæt færi hjá báðum liðum það sem eftir lifði leiks.

Shaneka Gordon skoraði þrennu í fyrri hálfleik í 5-0 sigri Grindavíkur á Fjölni í Grafarvogi en Grindavíkurliðið er stigalaust á botni Pepsi-deildarinnar. Saga Kjærbech Finnbogadóttir og Dernelle L Mascall skoruðu hin tvö mörkin í þessum fyrsta sigri Grindavíkur í sumar.

KR lenti í miklum vandræðum með B-deildarlið Selfoss en Dagmar Mýrdal Gunnarsdóttir tryggði Vesturbæjarliðinu sigurinn með því að skora þrennu í leiknum. KR komst í 2-0 og í 4-2 í leiknum.

FH-liðið fór á kostum í Kaplakrika og vann 8-0 stórsigur á ÍA í síðasta leik dagsins. Aldís Kara Lúðvíksdóttir og Sigrún Ella Einarsdóttir skoruðu báðar þrennu í leiknum. Bryndís Jóhannesdóttir átti stórleik fyrir FH, skoraði tvö mörk og lagði upp fimm.

Stjarnan, Fylkir, ÍBV og Afturelding komust áfram í átta liða úrslitin í gær.

Úrslit og markaskorarar í Valitor-bikar kvenna í dag:Fjölnir-Grindavík 0-5

0-1 Shaneka Gordon (3.), 0-2 Saga Kjærbech Finnbogadóttir (25.), 0-3 Shaneka Gordon (38.), 0-4 Shaneka Gordon (44.), 0-5 Dernelle L Mascall (78.).

Selfoss-KR 3-4

0-1 Dagmar Mýrdal Gunnarsdóttir (8.), 0-2 Dagmar Mýrdal Gunnarsdóttir (38.), 1-2 Anna Þorsteinsdóttir (60.), 2-2 Anna María Friðgeirsdóttir (54.), 2-3 Dagmar Mýrdal Gunnarsdóttir (75.), 2-4 Freyja Viðarsdóttir (90.), 3-4 Anna Þorsteinsdóttir (90.+1).

Breiðablik-Valur 0-1

0-1 Kristín Ýr Bjarnadóttir (6.).

FH-ÍA 8-0

1-0 Aldís Kara Lúðvíksdóttir (16.), 2-0 Sigrún Ella Einarsdóttir (42.), 3-0 Aldís Kara Lúðvíksdóttir (45.), 4-0 Bryndís Jóhannesdóttir (47., víti), 5-0 Bryndís Jóhannesdóttir (53.), 6-0 Aldís Kara Lúðvískdóttir (67.), 7-0 Sigrún Ella Einarsdóttir (71.), 8-0 Sigrún Ella Einarsdóttir (87.)

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar af vefsíðunni fótbolti.net




Fleiri fréttir

Sjá meira


×