Fótbolti

Giggs ekki með á opinni æfingu Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Giggs.
Ryan Giggs. Mynd/AFP
Ryan Giggs var ekki með á æfingu Manchester United í dag en æfingin var opin fjölmiðlamönnum sem hefðu örugglega hrúgast að Giggs til þess að fá viðbrögð hans við fréttum helgarinnar.

Ryan Giggs fékk í gegn umfjöllunarbann um einkalíf sitt vegna meints framhjáhalds hans með konu að nafni Imogen Thomas. Bannið fékk hann eftir að Thomas vildi segja sögu sína í The Sun.

Fjölmiðlar í Bretlandi þurftu því að sitja á sér en skoskt dagblað birti um helgina mynd af Giggs, reyndar með svartan borða yfir augun og án þess að nefna hann á nafn.

Í kjölfarið fékk málið mikla umræðu á Twitter-samskiptasíðunni sem gerði þetta að enn stærra máli og um leið vissu allir að maðurinn sem um ræðir væri Ryan Giggs.

Ryan Giggs er giftur og á tvö börn og var einn af síðustu mönnunum sem komu upp í hugann þegar fréttir fyrst af því að leikmaður í ensku úrvalsdeildinni væri búinn að fá í gegn slíkt umfjöllunarbann.

Manchester United er að undirbúa sig fyrir úrslitaleik Meistaradeildarinnar á móti Barcelona á Wembley á laugardaginn en þar getur Giggs unnið Meistaradeildina í þriðja sinn á ferlinum. 

Rafael, Paul Scholes, Edwin van der Sar og Dimitar Berbatov misstu líka af æfingunni í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×