Íslenski boltinn

Versta byrjun Blikakvenna í 34 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það hefur ekkert gengið hjá Blikastúlkum í upphafi móts.
Það hefur ekkert gengið hjá Blikastúlkum í upphafi móts.
Kvennalið Breiðabliks hefur aðeins fengið eitt stig út úr fyrstu tveimur umferðum Pepsi-deildar kvenna og er í sjötta sæti deildarinnar. Það þarf að fara alla leið aftur til ársins 1977 til þess að finna samskonar byrjun hjá kvennaliði Breiðabliks.

Breiðablik fékk líka aðeins eitt stig út úr fyrstu tveimur leikjum sínum sumarið 1977 en góðu fréttirnar fyrir Blikaliðið í dag er að Breiðabliksliðið fyrir 34 árum gafst ekki upp. Þær náðu þá í 15 af 16 mögulegum stigum eftir þessa slöku byrjun og tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Breiðablik gerði 1-1 jafntefli við Þrótt á heimavelli í 1. umferð og tapaði síðan 1-2 á móti KR á KR-vellinum í gærkvöldi.

Breiðabliksliðið hefur komist yfir í báðum leikjum sínum til þessa. Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir kom liðinu í 1-0 á 39. mínútu á móti Þrótti en Fanny Vago tryggði Þrótti stig með jöfnunarmarki á 72. mínútu. Blikar klikkuðu líka á víti í leiknum.

Arna Ómarsdóttir kom Breiðabliki í 1-0 á 44. mínútu á móti KR en Katrín Ásbjörnsdóttir jafnaði mínútu síðar og Freyja Viðarsdóttir tryggði KR síðan þrjú stig með glæsilegu sigurmarki á 88. mínútu leiksins.

Fæst stig kvennaliðs Breiðabliks eftir tvo leiki2011 - 1 stig (Markatala: 2-3)

1977 - 1 stig (3-4)

2010 - 3 stig (4-4)

2007 - 3 stig (4-6)

2004 - 3 stig (4-10)

2000 - 3 stig (9-3)

1999 - 3 stig (8-5)

1993 - 3 stig (2-3)

1990 - 3 stig (4-3)

1989 - 3 stig (3-5)

1987 - 3 stig (4-4)

1986 - 3 stig (5-3)

1984 - 3 stig (3-1)

1983 - 3 stig (10-1)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×