Fótbolti

Mourinho fær annað tímabil hjá Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
José Mourinho, þjálfari Real Madrid.
José Mourinho, þjálfari Real Madrid. Mynd/Nordic Photos/Getty
José Mourinho, þjálfari Real Madrid, hefur mátt þola mikla gagnrýni undanfarna daga fyrir hegðun sína og leikstíl Real-liðsins í viðureignum liðsins við erkifjendur sína í Barcelona. Real vann spænska bikarinn en er úr leik í Meistaradeildinni og á ekki mikla möguleika á því að vinna spænska meistaratitilinn. Guardian hefur heimildir fyrir því að Mourinho fá annað tímabil í einu heitasta sætinu í heimsfótboltanum.

Florentino Pérez, forseti Real Madrid, mun hitta þjálfarann á næstu dögum þar sem þeir munu fara yfir það sem á undan er gengið en miklu var búist við af Mourinho þegar hann tók við liðinu. Pérez vill að Portúgalinn haldi áfram starfi sínu og Mourinho hefur einnig stuðning frá stuðningsmönnum Real Madrid.

Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt Mourinho eru Alfredo Di Stéfano, heiðursforseti Real Madrid og Ramón Calderón, fyrrum forseti Real Madrid, sem rak meðal annars Fabio Capello á sínum tíma þrátt fyrir að Ítalinn hefði gert liðið að spænskum meisturum.  Di Stéfano talaði um að Real-liðið hafi verið eins og mús í gininu á ljóni og Calderón taldi að hann hafði svert nafn Real Madrid með hegðun sinni og varnarsinnuðu leikstíl.

Mourinho hefur alltaf talað um að lið sínu séu alltaf sterkari á öðru ári hans með liðið og þar fer hann ekki með neinar fleipur. Hvort hann breyti um leikstíl eða hegðun er síðan allt önnur saga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×