Fótbolti

Barcelona vann og Messi heldur áfram að skrifa söguna

Stefán Árni Pálsson skrifar
David Villa fagnar hér marki sínu í kvöld. Mynd. / Getty Images.
David Villa fagnar hér marki sínu í kvöld. Mynd. / Getty Images.
Barcelona var ekkert á því að misstíga sig í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld en þeir sigruðu lið Osasuna 2-0 á Camp Nou í Barcelona.

David Villa skoraði fyrsta mark leiksins á 24.mínútu leiksins. Börsungar fengu heldur betur færin til að gera út um leikinn og það hófst rétt undir lok leiksins þegar Lionel Messi skoraði annað mark leiksins og gulltryggði sigur Barcelona.

Lionel Messi hefur átt hreint út sagt magnað tímabil sem fer í sögubækurnar en hann hefur gert 51 mark á þessi tímabili í öllum keppnum en það er met hjá félaginu sem verður erfitt að slá.

Barcelona jók því aftur forskot sitt á Real Madrid í átta stig og eru með 88 stig í efsta sæti deildarinna á meðan Real Madrid eru í því öðru með 80 stig.

Það virðist ekkert koma í veg fyrir að Barcelona verji spænska meistaratitilinn.

Barcelona og Real Madrid mætast í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á miðvikudaginn og það verður fróðlegt að sjá hvernig sá leikur fer. Real Madrid vann úrslitaleik spænska bikarsins síðastliðið miðvikudagskvöld, en þá mættust þessi lið. Þá sýndi Real Madrid að Barcelona er alls ekki óvinnandi vígi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×