Íslenski boltinn

Gunnar Rafn: Missum leikmenn á hverju ári

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gunnar Rafn Borgþórsson er nýr þjálfari Vals en liðinu var í dag spáð sigri í Pepsi-deildar kvenna á árlegum kynningarfundi deildarinnar.

Valur hefur orðið Íslandsmeistari síðustu fimm árin og tvöfaldur meistari síðustu tvö.

„Mér líst mjög vel á þetta enda bjuggumst við þessari niðurstöðu," sagði Gunnar Rafn í samtali við Vísi í dag. Hann óttast ekki að þurfa að fylgja eftir þeim góða árangri sem liðið hefur náð undanfarin ár.

„Ég er ekki að feta í nein fótspor. Nýr þjálfari kemur inn með sínar áherslur og heldur áfram því góða sem hefur verið gert áður. Við munum byggja á því og sjá svo hvað setur."

Valur hefur eins og mörg önnur lið í deildinni misst sterka leikmenn í atvinnumennsku, svo sem fyrirliðann Katrínu Jónsdóttur, Dóru Maríu Lárusdóttur og Maríu Björg Ágústsdóttur.

„Valur sendir leikmenn á hverju ári í atvinnumennsku. Það er frábært fyrir Val og þær stelpur sem fara út. Við munum gera það áfram enda ekki það eigingjörn að vilja að halda þeim leikmönnum hjá okkur."

„Við missum leikmenn en erum með það marga góða leikmenn að við teljum okkur ekki þurfa að fylla í þessi skörð."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×