Fótbolti

Messi hefur ekki enn skorað gegn Mourinho

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Mourinho og Lionel Messi mætast aftur í kvöld.
Jose Mourinho og Lionel Messi mætast aftur í kvöld. Nordic Photos / AFP
Þrátt fyrir að Lionel Messi sé markamaskína af bestu gerð hefur honum ekki enn tekist að skora mark í leik gegn liði sem hefur verið stýrt af Jose Mourinho.

Alls hefur Messi mætt liðum Mourinho átta sinnum. Fyrst þegar Mourinho var stjóri Chelsea, þá Inter og loks Real Madrid.

Messi er á góðri leið með verða fyrsti leikmaður spænsku úrvalsdeildarinnar sem skorar meira en 50 mörk í öllum keppnum á einu tímabili en hann er nú kominn upp í 48 mörk sem er metjöfnun.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann skorað tæp 200 mörk á ferlinum og er fjórði markahæsti leikmaðurinn í sögu Barcelona.

En Mourinho hefur greinilega fundið leið til að stöðva hann. Messi fær þó enn eitt tækifærið til að skora gegn liði Mourinho þegar að Barcelona mætir Real Madrid í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld klukkan 20.00.

Þess má geta að Mourinho starfaði á sínum tíma sem þjálfari hjá Barcelona og var bæði þeim Bobby Robson og Louis van Gaal innan handar. Hann hætti hjá félaginu árið 2000, aðeins tveimur mánuðum áður en þrettán ára stráklingur frá Argentínu að nafni Lionel Messi gekk til liðs við félagið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×