Íslenski boltinn

Lúðvík: Hannes er ákveðin fjárfesting

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Lúðvík Arnarson, varaformaður knattspyrnudeildar FH, segir að FH hafi náð mjög góðum samningi við Hannes Sigurðsson en hann mun ekki hverfa á braut fyrir mót líkt og raunin varð með Eyjamanninn Gunnar Heiðar Þorvaldsson.

"Við erum mjög sáttir að fá Hannes til okkar enda okkar maður. Þegar okkar menn koma heim viljum við fá þá til okkar," sagði Lúðvík glaður með nýja liðsstyrkinn en er þetta dýr pakki?

"Hvað er dýrt og hvað er ekki dýrt í þessu? Ég held að við höfum náð verulega góðum samningum við hann. Hannes hefur auðvitað möguleika á að komast út aftur. Það má segja að þetta sé ákveðin fjárfesting," sagði Lúðvík.

Eyjamenn fengu Gunnar Heiðar Þorvaldsson en misstu hann svo aftur fyrir tímabilið. Getur það sama gerst með Hannes?

"Það er búið að loka öllum félagaskiptagluggum núna og hann getur því ekki farið neitt fyrr en í júlí. Þess vegna höfum við beðið til 1. apríl með þetta mál en það eru 2-3 vikur síðan gengið var frá málinu. Við vildum því bíða rólegir."

FH er líkt og síðustu ár með afar sterkt lið í höndunum. Stendur til að bæta við hópinn.

"Við erum komnir með mjög þéttan hóp. Það er bónus að fá Hannes heim. Við erum ekki hættir á markaðnum en við erum ekki að leita lengur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×