Fótbolti

Mourinho: Leikmennirnir eru dauðir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Jose Mourinho, stjóri Real Madrid, gerir sér grein fyrir því að eitthvað mjög mikið þurfi til að liðið standi uppi sem Spánarmeistari í vor.

Real Madrid tapaði óvænt fyrir Sporting Gijon á heimavelli í gær, 1-0, en þetta var í fyrsta sinn í níu ár sem að Mourinho tapar deildarleik á heimavelli.

„Við þekkjum okkar takmörk,“ sagði Mourinho eftir leikinn. „Leikmennirnir eru dauðir. Heppni er hluti af fótboltanum - andstæðingarnir okkar fengu hana alla í dag og við ekkert af henni.“

„Tölfræðin segir að við eigum enn möguleika á titlinum en ef að bilið eykst úr fimm stigum í átta verður þetta nánast ómögulegt verkefni.“

Á miðvikudaginn mætir Real Madrid Tottenham í fyrri leik liðanna í fjórðungsúrslitum Meistaradeildar Evrópu. Real var án margra lykilmanna í leiknum í kvöld, þeirra á meðal Cristiano Ronaldo, Marcelo, Xabi Alonso og Karim Benzema.

„Á morgun mun ég ræða við þá leikmenn sem eru meiddir og ákveða þá hvort við tökum áhættu með því að spila leikinn.“

„Ef að Ronaldo spilar þá er það vegna þess að við ákváðum í sameiningu að taka þá áhættu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×