Fótbolti

Messi og Mourinho þeir tekjuhæstu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Nordic Photos / AFP
Lionel Messi er tekjuhæsti knattspyrnumaður heims í dag og Jose Mourinho þénar mest allra knattspyrnustjóra samkvæmt úttekt France Football-tímaritsins.

Tekjur Messi á árinu 2011 eru sagðar vera um 31 milljón evra eða um fimm milljarðar króna og er þá bæði reiknað með launum og tekjum af auglýsingasamningum. Tekjur Mourinho nema að sama skapi um 13,5 milljónum evra - um 2,2 milljarða króna.

Messi á þó nokkuð í land með að ná tekjuhæsta íþróttamanni heims - kylfingnum Tiger Woods sem þénar um 53 milljónir evra á þessu ári.

Af knattspyrnumönnunum er Cristiano Ronaldo, leikmaður Real Madrid, næstur á tekjulistanum með 27,5 milljónir evra og þriðji er Wayne Rooney hjá Manchester United með 20,7 milljónir.

Pep Guardiola, stjóri Barcelona, þénar næstmest á meðal stjóranna en tekjur hans eru sagðar vera um 10,5 milljónir evra. Rafa Benitez, fyrrum stjóri Inter og Liverpool, er þó skammt undan með 10,2 milljónir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×