Fótbolti

Adebayor: Enginn er jafn hamingjusamur og ég

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Emmanuel Adebayor er greinilega ánægður með tilveruna hjá Real Madrid og segir að skotárásin í Afríku í fyrra hafi kennt sér að njóta lífsins. Hann vonast til að hann verði áfram hjá Madrid eftir að lánssamningurinn rennur út.

Adebayor var lánaður til Real í janúar síðastliðnum frá Manchester City til að fylla í skarð Gonzalo Higuain sem hefur verið frá vegna bakmeiðsla.

„Ég fæddist hamingjusamur og er enginn jafn hamingjusamur og ég er í dag," sagði hann í samtali við spænska fjölmiðla. „Það er draumi líkast að spila hér og mér finnst ég aftur koma einhverjum að gagni."

Adebayor lenti í óskemmtilegri lífsreynslu þegar skotið var á liðsrútu landsliðs Tógó skömmu áður en Afríkumótið hófst í fyrra.

„Skotárásin er það versta sem ég hef nokkru sinni lent í. Sú reynsla hjálpaði mér að þroskast sem manneskja. Ég veit núna að dauðinn getur verið handan við hornið. Ég ætti í raun að vera dáinn en ég er á lífi og að spila með Real Madrid."

„Stemningin í hópnum er mjög góð. Allir hafa verið mjög indælir í minn garð. Ég reyni að endurgjalda það með því að æfa eins vel og ég get og gefa félaginu allt sem ég á. Ég mun gera allt sem ég get til að vera áfram hér."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×