Fótbolti

Luis Fabiano snýr aftur til Sao Paulu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Brasilíumaðurinn Luis Fabiano, leikmaður Sevilla á Spáni, hefur ákveðið að snúa aftur til heimalandsins og hefur hann gert fjögurra ára samning við Sao Paulo.

Fabiano er í dag þrítugur og hefur verið í sex ár á Spáni. Hann lék þar áður í þrjú ár með Sao Paulu og naut mikillar velgengni. Alls skoraði hann 118 mörk í 160 leikjum.

Hjá Sevilla skoraði hann alls 106 mörk og vann sex titla með félaginu en hann varð bæði Evrópumeistari tvisvar (í UEFA-bikarkeppninni í bæði skiptin) og tvisvar spænskur bikarmeisatri.

Fabiano var orðaður við mörg félög í sumar en skrifaði svo undir tveggja ára samning við Sevilla í ágúst. Sao Paulo þarf að greiða Sevilla 7,6 milljónir evra fyrir kappann.

Talið er að Fabiano hafi þurft að færa ýmislegar fjárhagslegar fórnir til að ganga frá þessum samningum.

„Peningar skipta mig ekki öllu máli. Það er ekki hægt að borga fyrir hamingjuna sem fæst með því að klæðast aftur treyjunni aftur sem ég ann mest.“

„Ég á Sao Paulo allt að þakka. Ég mun leggja allt sem ég á í sölurnar fyrir félagið og ég ætla að skora mörg mörk.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×