Handbolti

Sverre: Lélegir á öllum sviðum

Eiríkur Stefan Ásgeirsson skrifar
Sverre Jakobsson gat ekki skýrt hvað fór úrskeðis hjá íslenska landsliðinu í dag er liðið tapaði fyrir Þýskalandi með ellefu marka mun, 39-28.

„Þetta var gríðarlega sárt. Við vorum lélegir á öllum sviðum í dag og leikur okkar var til skammar, frá a til ö. Ég hef engar skýringar á því. Liðið datt á rassinn og var bara þar."

„Við lögðum upp með eitthvað allt annað en við gerðum í dag en það gekk ekkert upp. Varnarleikurinn var hræðilegur og þá er erfitt fyrir markverðina að koma sér inn í leikinn. Við hjálpuðum þeim ekki. Sóknarleikurinn var heldur ekki eins beittur og síðast."

„Það var eins og okkur væri alveg sama. Það verður að kryfja þetta því við erum það reynslumiklir að svona á ekki að geta gerst."

„Þetta er þó sem betur fer ekki búið. Punktarnir sem við náðum í heima eru mikilvægir en maður man bara ekki eftir þeim núna. Við höfum áður lent upp við vegg og við verðum bara að vinna báða leikina okkar í sumar."

Viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×